2017

Áfram með þeim bestu

Háskóli Íslands komst í fyrsta sinn á Shanghai-listann yfir bestu háskóla heims á þessu ári. Listinn fyrir árið 2017 var birtur í ágúst og var Háskóli Íslands í sæti 401-500 á listanum.

Á lista Times Higher Education komst háskólinn í 201.-250. sæti fyrir tímabilið 2017-2018.

Á árinu komst Háskólinn einnig ofarlega á lista Times Higher Education, sem tóku sérstaklega til fræðasviða:

  • Hugvísindi: 241. sæti (16. sæti á Norðurlöndum)
  • Félagsvísindi: sæti 251-300 (13.-19. sæti á Norðurlöndum)
  • Verkfræði og tækni: 176.-200. sæti
  • Lífvísindi: 126.-150. sæti
  • Heilbrigðisvísindi: 176.-200. sæti
  • Raunvísindi: 176.-200. sæti

Vefur HÍ meðal fimm bestu ríkisvefjanna

Nýr vefur Háskóla Íslands, sem opnaður var snemmsumars þetta ár, var í hópi fimm bestu ríkisvefjanna samkvæmt úttekt á vegum stjórnvalda sem nefndist „Hvað er spunnið í opinbera vefi“.

Í úttektinni fólst mat á gæðum opinberrra vefja, þar sem m.a. var horft til rafrænnar þjónustu, möguleika á lýðræðislegri þátttöku, aðgengismála og fleiri þátta.

Veröld - hús Vigdísar opnuð

Nýbygging sem helguð er kennslu í erlendum tungumálum við Háskóla Íslands og starfsemi Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur, fékk nafnið Veröld - hús Vigdísar á þessu ári. Efnt var til samkeppni um heiti á húsið og bárust alls 800 tillögur í keppnina.

Húsið var opnað við hátíðlega athöfn á sumardaginn fyrsta þetta ár, 20. apríl, að viðstöddu fjölmenni.

Fyrsta rafhleðslustöðin

Hleðslustöð fyrir tvo rafmagnsbíla var tekin í notkun í maí þetta ár. Þetta er fyrsta rafhleðslustöð sem tekin var í notkun á háskólasvæðinu.

Stöðin er fyrir utan húsnæði Upplýsingatæknisviðs (þá Reiknistofnunar Háskóla Íslands) að Neshaga 16.

Þegar stöðin var tekin í notkun voru fimm starfsmenn Reiknistofnunar komnir á rafbíla. Því var ljóst að hleðslustöðin kæmi að góðum notum á vinnustaðnum.

Image
Hleðslustöð fyrir rafmagnsbíla fyrir utan húsnæði Reiknistofnunar Háskóla Íslands

Háskólakórinn vinnur til gullverðlauna

Háskólakórinn, undir stjórn Gunnsteins Ólafssonar, vann tvenn gullverðlaun á kórahátíð í Olomouc í Tékklandi í byrjun júní.

Kórinn keppti í tveimur liðum í kórakeppninni Festival of Songs og vann í þeim báðum.

Á myndinni eru Gunnsteinn Ólafsson stjórnandi og Guðmundur Alfreðsson, formaður stjórnar kórsins, kampakátir með gullið.

Image
Gunnsteinn Ólafsson stjórnandi Háskólakórsins og Guðmundur Alfreðsson, formaður stjórnar kórsins

Gróska rís í Vatnsmýri

Framkvæmdir hófust við Grósku, nýtt hugmyndahús á lóð Vísindagarða Háskóla Íslands á árinu.

Grósku er ætlað er að verða suðupottur nýsköpunar og samstarfs háskóla og atvinnulífs. Þegar var ákveðið að CCP flytti í húsið.

Á myndinni sjást Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Stefanía G. Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri CCP á Íslandi og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur taka fyrstu skóflustunguna að húsinu, 8. febrúar.

Image
Jón Atli Benediktsson,  Stefanía G. Halldórsdóttir og Dagur B. Eggertsson taka fyrstu skóflustungu að Grósku, 8. febrúar 2017

HÍ gerist aðilil að edX

Háskóli íslands varð á árinu hluti af edX, alþjóðlegu og leiðandi neti háskóla sem bjóða opin netnámskeið.

Tilgangur þátttöku Háskólans í edX er að auka aðgengi að öflugu og spennandi námi, koma þekkingu innan skólans á framfæri á alþjóðavettvangi og þróa kennsluaðferðir í takt við örar breytingar á tækni og samfélagi.

Fyrsta námskeið Háskólans í edX samstarfinu var í norrænum miðaldafræðum og ber það heitið The Medieval Icelandic Sagas.

Image
edX logo

Gengið á Sveinstind

Myndin er tekin í árlegri fjallaferð á vegum Verkfræðistofnunar Háskóla Íslands í maí 2017.

Í ferðinni var gengið á Sveinstind á Öræfajökli og voru 12 starfsmenn HÍ með í för, flestir frá Verkfræði- og náttúruvísindasviði.

Fararstjórar voru Tómas Guðbjartsson, prófessor vil Læknadeild HÍ og Skúli Júlíusson, atvinnuleiðsögumaður.

Image
Fjallaferð Verkfræðistofnunar Háskóla Íslands, gengið á Sveinstind