2017
Áfram með þeim bestu
Háskóli Íslands komst í fyrsta sinn á Shanghai-listann yfir bestu háskóla heims á þessu ári. Listinn fyrir árið 2017 var birtur í ágúst og var Háskóli Íslands í sæti 401-500 á listanum.
Á lista Times Higher Education komst háskólinn í 201.-250. sæti fyrir tímabilið 2017-2018.
Á árinu komst Háskólinn einnig ofarlega á lista Times Higher Education, sem tóku sérstaklega til fræðasviða:
- Hugvísindi: 241. sæti (16. sæti á Norðurlöndum)
- Félagsvísindi: sæti 251-300 (13.-19. sæti á Norðurlöndum)
- Verkfræði og tækni: 176.-200. sæti
- Lífvísindi: 126.-150. sæti
- Heilbrigðisvísindi: 176.-200. sæti
- Raunvísindi: 176.-200. sæti
Vefur HÍ meðal fimm bestu ríkisvefjanna
Nýr vefur Háskóla Íslands, sem opnaður var snemmsumars þetta ár, var í hópi fimm bestu ríkisvefjanna samkvæmt úttekt á vegum stjórnvalda sem nefndist „Hvað er spunnið í opinbera vefi“.
Í úttektinni fólst mat á gæðum opinberrra vefja, þar sem m.a. var horft til rafrænnar þjónustu, möguleika á lýðræðislegri þátttöku, aðgengismála og fleiri þátta.
Veröld - hús Vigdísar opnuð
Nýbygging sem helguð er kennslu í erlendum tungumálum við Háskóla Íslands og starfsemi Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur, fékk nafnið Veröld - hús Vigdísar á þessu ári. Efnt var til samkeppni um heiti á húsið og bárust alls 800 tillögur í keppnina.
Húsið var opnað við hátíðlega athöfn á sumardaginn fyrsta þetta ár, 20. apríl, að viðstöddu fjölmenni.
Fyrsta rafhleðslustöðin
Hleðslustöð fyrir tvo rafmagnsbíla var tekin í notkun í maí þetta ár. Þetta er fyrsta rafhleðslustöð sem tekin var í notkun á háskólasvæðinu.
Stöðin er fyrir utan húsnæði Upplýsingatæknisviðs (þá Reiknistofnunar Háskóla Íslands) að Neshaga 16.
Þegar stöðin var tekin í notkun voru fimm starfsmenn Reiknistofnunar komnir á rafbíla. Því var ljóst að hleðslustöðin kæmi að góðum notum á vinnustaðnum.
Háskólakórinn vinnur til gullverðlauna
Háskólakórinn, undir stjórn Gunnsteins Ólafssonar, vann tvenn gullverðlaun á kórahátíð í Olomouc í Tékklandi í byrjun júní.
Kórinn keppti í tveimur liðum í kórakeppninni Festival of Songs og vann í þeim báðum.
Á myndinni eru Gunnsteinn Ólafsson stjórnandi og Guðmundur Alfreðsson, formaður stjórnar kórsins, kampakátir með gullið.
Gróska rís í Vatnsmýri
Framkvæmdir hófust við Grósku, nýtt hugmyndahús á lóð Vísindagarða Háskóla Íslands á árinu.
Grósku er ætlað er að verða suðupottur nýsköpunar og samstarfs háskóla og atvinnulífs. Þegar var ákveðið að CCP flytti í húsið.
Á myndinni sjást Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Stefanía G. Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri CCP á Íslandi og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur taka fyrstu skóflustunguna að húsinu, 8. febrúar.
HÍ gerist aðilil að edX
Háskóli íslands varð á árinu hluti af edX, alþjóðlegu og leiðandi neti háskóla sem bjóða opin netnámskeið.
Tilgangur þátttöku Háskólans í edX er að auka aðgengi að öflugu og spennandi námi, koma þekkingu innan skólans á framfæri á alþjóðavettvangi og þróa kennsluaðferðir í takt við örar breytingar á tækni og samfélagi.
Fyrsta námskeið Háskólans í edX samstarfinu var í norrænum miðaldafræðum og ber það heitið The Medieval Icelandic Sagas.
Gengið á Sveinstind
Myndin er tekin í árlegri fjallaferð á vegum Verkfræðistofnunar Háskóla Íslands í maí 2017.
Í ferðinni var gengið á Sveinstind á Öræfajökli og voru 12 starfsmenn HÍ með í för, flestir frá Verkfræði- og náttúruvísindasviði.
Fararstjórar voru Tómas Guðbjartsson, prófessor vil Læknadeild HÍ og Skúli Júlíusson, atvinnuleiðsögumaður.