2018
Gervitungl til sýnis
Á myndinni sést gervitungl sem var til sýnis á Háskólatorgi 15.-18. janúar þetta ár.
Gervitunglið, sem heitir Planet Labs, er mjög smátt miðað við „hefðbundin“ gervitungl eða aðeins um fjögur kílógrömm að þyngd, 30 sentímetrar á lengd og 10 sentímetrar á breidd. Tunglinu er skotið á sporbaug með hefðbundnum eldflaugum og þeim komið til alþjóðlegu geimstöðvarinnar og þaðan sett á sporbaug í 500 kílómetra hæð yfir jörðu.
Gervitunglið er einungis 90 mínútur að fara umhverfis jörðina. Um 200 sambærileg tungl taka daglega fjarkönnunarmyndir á ferðalagi sínu.
Fulltrúar HÍ í stjórn Aurora
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands var kosinn í stjórn Aurora-samstarfsnetsins þetta ár, nets níu evrópskra Háskóla sem HÍ á aðild að.
Á árinu var Elísabet Brynjarsdóttir, forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands, einnig kosin forseti Stúdentaráðs Aurora.
Fyrsta edX-námskeiðið
Á fjórða þúsund manns tók þátt í fyrsta alþjóðlega netnámskeiði Háskóla Íslands, sem hófst 1. mars.
Námskeiðið er í norrænum miðaldafræðum og eru Íslendingasögurnar í háskerpu með öllum sínum undrum, æsilegum viðburðum, mögnuðum tilsvörum og litbrigðum í mannlífi.
Þjóðhagfræði opin almenningi
Á haustmisseri bauð Hagfræðideild öllum áhugamönnum um hagfræði og efnahagsmál að sækja háskólafyrirlestra í þjóðhagfræði fyrir byrjendur, sér að kostnaðarlausu.
Markmið námskeiðsins er að miðla innsýn í þjóðhagfræði, helstu kenningar hennar og hugtök, og veita yfirsýn yfir helstu viðfangsefni þjóðhagfræðinga og ýmis lögmál efnahagslífsins.
Fyrirlesari í námskeiðinu var Þorvaldur Gylfason prófessor.
Uglan flýgur á Bifröst
Vilhjálmur Egilsson, rektor Háskólans á Bifröst, og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, undirrituðu viljayfirlýsingu í maí, um sameiginlegan vilja til að vinna að því að tölvukerfið Ugla yrði innleitt hjá Háskólanum á Bifröst. Þar var Uglan svo tekin í notkun árið 2019.
Uglan var þá þegar í notkun hjá öllum opinberu háskólum landsins.
Setberg afhent háskólanum
Háskóli Íslands tók aftur við byggingunni Setbergi 20. desember þetta ár. Frá árinu 2006 hafði Þjóðminjasafn Íslands haft skrifstofur í húsinu.
Við þessi tímamót fékk húsið nýtt hlutverk. Þar eru nú kennslustofur, hannaðar til að þjóna nútíma kennsluháttum, auk ýmiss konar fundaraðstöðu sem kennarar og kennslusérfræðingar fræðasviða geta nýtt sér. Í húsinu er einnig fyrsta flokks upptökuaðstaða þar sem kennarar geta tekið upp kennsluefni til að nýta við fjarkennslu og við gerð opinna netnámskeiða.
Setberg er ein elsta bygging háskólans, tekin í notkun árið 1937. Lengi vel gekk byggingin undir nafninu Atvinnudeildarhúsið. Árið 1968 fékk húsið nýtt hlutverk þegar rannsóknir og kennsla í jarðfræði og síðar landfræði fluttust í húsið.
Menntaverðlaun Háskóla Íslands
Menntaverðlaun Háskóla Íslands voru veitt í fyrsta sinn á vormánuðum 2018.
Verðlaunin eru veitt framhaldsskólanemum við útskrift úr framhaldsskóla, sem hafa sýnt framúrskarandi árangur á stúdentsprófi, auk þess að hafa náð eftirtektarverðum árangri á sviði lista eða íþrótta, átt mikilvægt framlag til skólafélaga eða skólans eða sýnt þrautseigju við erfiðar aðstæður.
Verðalunin felast í veglegri bókargjöf auk þess sem nemandi fær viðurkenningarskjal frá rektor og hlýtur styrk sem nemur upphæð skráningargjalds fyrsta skólaárið í Háskóla Íslands, kjósi hann að hefja nám þar.