2019
Í röð þeirra bestu
Á árinu var Háskóli Íslands, einn íslenskra háskóla, á báðum virtustu listum heims yfir háskóla sem hæst eru metnir á alþjóðavettvandi.
Háskólinn er í sæti 401-500 á lista ShanghaiRanking Consultancy yfir bestu háskóla heims og í sæti 351-400 á listanum Times Higher Education World University Rankings. Báðir listar taka til rannsókna, kennslu og áhrifa í alþjóðlegu vísindasamfélagi.
Loftslagsverkfall
Föstudaginn 15. mars fóru stúdentar við Háskóla Íslands í loftslagsverkfall. Verkfallið var hluti af alþjóðlegu verkfalli í á annað þúsund borgum víðs vegar um heiminn.
Hugmyndin að verkföllum fyrir loftslagið byrjaði með hinni ungu Gretu Thunberg í Svíþjóð. Hún fór að skrópa í skólanum á föstudögum og stillti sér upp fyrir utan þinghúsið í Stokkhólmi. Með því vildi hún vekja athygli á sinnuleysi stjórnvalda í loftslagsmálum.
Stúdentar kröfðust þess að Ísland tæki af skarið, hlustaði á vísindamenn, lýsti yfir neyðarástandi í loftslagsmálum og léti hið minnsta 2,5 prósent af þjóðarframleiðslunni renna beint til loftslagsaðgerða.
Mikil ásókn í kennaranám
Umsóknum í kennaranám við Háskóla Íslands fjölgaði um 45% milli ára. Umsóknum í meistaranám í leikskólafræðum fjölgaði um 25%.
Þessa fjölgun umsókna mátti meðal annars þakka þjóðarátaki sem miðaði að því að laða fólk í kennaranám hérlendis.
Rósalind
Háskólakötturinn Rósalind var fastagestur á Háskólasvæðinu á árunum 2018-2021. Þessi námsfúsa læða auðgaði lífið á háskólasvæðinu og gladdi bæði stúdenta og starfsfólk. Rósalind kunni best við sig á Háskólatorgi, enda mannblendin með eindæmum. Kisan fallega heimsótti líka rektor og fékk því viðurnefnið #Rósalindrektor, enda ásældist hún embættið stíft.
Hús íslenskunnar tekur að rísa
Framkvæmdir hófust að nýju við Hús íslenskunnar síðsumars þetta ár, eftir sex ára hlé.
Í Húsi íslenskunnar verður fjölbreytt starfsemi Íslensku- og menningardeildar Háskóla Íslands og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Þar verða sérhönnuð rými s.s. fyrir varðveislu, rannsóknir og sýningu á fornum íslenskum skinnhandritum, vinnustofur kennara og fræðimanna, lesrými fyrir háskólanema, fyrirlestra- og kennslusalir, skrifstofur og bókasafn.
Gamli Garður stækkaður
Framkvæmdir hófust við stækkun Gamla Garðs seint á árinu. Tvær þriggja hæða byggingar voru byggðar við stúdentagarðinn.
Við hönnun hússins var lögð áhersla á að það félli vel að nærliggjandi byggingum Háskóla Íslands, Gamla Garði, Þjóðminjasafni og götumynd við Hringbraut.
Alls eru 69 herbergi í nýju byggingunum, með sér baðherbergi, sameiginlegu eldhúsi, setustofum, samkomurými, geymslum og þvottaaðstöðu.