2020

Heimsfaraldur

Veiran skæða Covid-19 var allsráðandi þetta ár. Samkomubann tók gildi 16. mars til að hefta útbreiðslu veirunnar og var byggingum háskólans þá skellt í lás. Ýmsum föstum viðburðum við Háskólann var frestað eða aflýst. Kennsla og fundir fluttust í auknum mæli á rafrænt form.

Hér fyrir neðan eru nokkrar myndir frá tímum faraldursins, sem Kristinn Ingvarsson ljósmyndari tók.

Metfjöldi nemenda

Umsóknum um nám við Háskóla Íslands fjölgaði mikið milli ára. Á tólfta þúsund umsóknir bárust í grunn- og framhaldsnám fyrir skólaárið 2020-2021 og höfðu þær aldrei verið fleiri. Til samanburðar má geta að um 13.300 nemendur stunduðu nám við skólann á vormisseri 2020. 

Um haustið þetta ár hófu um 4.200 nemendur grunnnám og hátt í 3.000 hófu framhaldsnám. Alls voru nemendur hátt í 15.000 og höfðu aldrei verið fleiri í upphafi skólaárs.

Image
Nemendur á móttökuborði á Háskólatorgi

Nýtt námsumsjónarkerfi

Námsumsjónarkerfið Canvas var tekið í notkun hjá Háskóla Íslands á þessu ári. Canvas er algengasta námsumsjónarkerfi í háskólum á Norðurlöndum og notað í mörgum af fremstu háskólum heims, t.d. Harvard, Oxford og Stanford. 

Canvas var valið á grundvelli viðamikillar þarfagreiningar og notendaprófana þar sem starfsmenn og nemendur á öllum fræðasviðum tóku þátt.

Í kerfinu fá nemendur góða yfirsýn yfir námsmat, námsgögn og leslista, einkunnir og tilkynningar frá kennurum.  Megináhersla er lögð á notendavæna upplifun.

Image
Canvas-logo

Með áhrifamestu vísindamönnum heims

Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ og Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar voru á árinu á lista yfir áhrifamestu vísindamenn heims. 

Auk þeirra voru á listanum Bernharð Örn Pálsson, prófessor í líftækni og læknisfræði, Jocelyn Chanussot og Ian F. Akyildiz, gestaprófessorar við Rafmagns- og tölvuverkfræðideild. 

Listinn nefnist Highly Cited Research og er unninn af greiningarfyrirtækinu Claritive Analytics. Hann tekur til eins prósents vísindamanna innan hverrar fræðigreinar sem mest er vitnað til í vísindagreinum sem birtast í alþjóðlegum vísindatímaritum. Listinn byggist á gögnum úr gagnabankanum Web of Science og í ár er tekið mið af tilvitnunum á árabilinu 2009-2019. 

Image
Jón Atli Benediktsson og Kári Stefánsson. Samsett mynd

Sumarnám við Háskólann

Þetta ár var boðið upp á fjölbreytt sumarnám, sem hentaði bæði þeim sem voru þegar í námi við HÍ og öðrum sem vildu efla færni sína.

Stjórnvöld veittu háskólum landsins samtals hálfan milljarð króna til sumarnáms og fékk Háskóli Íslands helming þeirrar upphæðar.

Með sumarnáminu var verið að bregðast við aðstæðum í samfélaginu í kjölfar Covid-faraldursins, sporna gegn atvinnuleysi og efla menntun ungs fólks.

Image
Gestir í sól fyrir utan Háskólatorg

Stúdentaráð 100 ára

Stúdentaráð fagnaði aldarafmæli í miðjum Covid-faraldri með hátíðardagskrá í beinni útsendingu 4. desember.

Afmæli Stúdentaráðs Háskóla Íslands markar mikil tímamót í hagsmunabaráttu stúdenta sem hefur sett svip sinn á íslenskt samfélag frá því að stúdentar gengu fyrst til kosninga í desember árið 1920.

„Við hófum árið á opnunarhátíð í Gamla bíói þann 31. janúar sl. og svo áttu að vera viðburðir yfir allt skólaárið. Októberfest, stærsti árlegi viðburðurinn okkar, átti til að mynda að vera með aldarafmælisívafi en við urðum að aflýsa þeim viðburði með miklum trega en auðvitað sannfærð um að það væri það rétta í stöðunni,“ sagði Isabel Alejandra Diaz, forseti Stúdentaráðs, um aldarafmælisárið.

Image
Isabel Alejandra Diaz, forseti Stúdentaráðs 2022

Nýtt rannsóknasetur á Breiðdalsvík

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Breiðdalsvík tók til starfa á haustdögum þetta ár. Rannsóknasetrinu er einkum ætlað að sinna rannsóknum á sviði jarðfræði og málvísinda. Setrið hefur aðsetur í húsi gamla kaupfélagsins á Breiðdalsvík.

 

Image
Gamla kaupfélagið á Breiðdalsvík. Þar hefur Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Breiðdalsvík aðstöðu.

Vigdísarverðlaunin

Vigdísarverðlaunin voru afhent í fyrsta sinn á 90 ára afmælisdegi Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands, 15. apríl.

Fyrsti handafi Vigdísarverðlaunanna er Jonhard Mikkelsen, málvísindamaður, kennari og útgefandi. Hann hlaut þau fyrir einstakt framlag sitt til að efla og þróa færeyska tungu bæði inn á við og út á við.

Verðlaunin hafa verið veitt árlega einstaklingi sem brotið hefur blað með störfum sínum í þágu menningar og þá einkum tungumála. Tilgangurinn með verðlaununum er að heiðra og vekja athygli á lofsverðu framlagi Vigdísar til tungumála og menningar.

Image
Jonhard Mikkelsen, fyrsti handhafi Vigdísarverðlaunanna.

Rannsóknasetur á sviði loftslagsmála

Í tilefni af 80 ára afmæli Margrétar Danadrottningar hinn 16. apríl og 90 ára afmæli Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands, hinn 15. apríl setti Carlsbergsjóðurinn á fót dansk-íslenskt rannsóknasetur í samvinnu við íslensk stjórnvöld. Rannsóknarsetrinu er ætlað að auka skilning  á samspili loftslags og vistkerfa og á áhrifum loftslagstengdra breytinga í hafinu á íslenska menningu og samfélag.

Rannsóknasetrið er þvervísindalegt og heitir á íslensku „Þvervísindalegt rannsóknasetur Margrétar drottningar og Vigdísar Finnbogadóttur um hafið, loftslag og samfélag“. Rannsóknasetrið er sameiginleg afmælisgjöf til Margrétar drottningar og Vigdísar Finnbogadóttur, fv. forseta Íslands.

Image
Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands og Margrét Þórhildur, Danadrottning

Háskólatónleikar um heim allan

Um áratugabil, eða frá 1974, hefur það verið hefð í Háskóla Íslands að standa fyrir Háskólatónleikum. Tónleikarnir hafa verið haldnir mánaðarlega og fara fram í byggingum Háskólans.

Vegna Covid-19 og samkomutakmarkana á árinu var ekki unnt að fá tónleikagesti á staðinn. En brugðið var á það ráð að senda tónleikana út í beinu streymi á netinu. Þar með gat heimsbyggðin öll notið þeirra.

Á fyrstu tónleikum vetrarins 2020-2021 kom fram djassgítarleikarinn Mikael Máni ásamt hljómsveit sinni.