2021

Áhrifavaldur í 110 ár

Á árinu var haldið upp á 110 ára afmæli Háskólans með ýmsum hætti, eftir því sem Covid og samkomutakmarkanir leyfðu.

Í þessu myndbandi er stiklað á stóru í 110 ára sögu Háskólans.

Allt á floti

Aðfararnótt 21. janúar þetta ár varð gríðarlegt vatnstjón í nokkrum byggingum Háskólans þegar mörg hundruð lítrar af vatni tóku að flæða frá framkvæmdasvæði fyrir utan Háskólatorg.

Hlutar af Háskólatorgi, Gimli, Lögbergi, Árnagarði og Aðalbyggingu voru ónothæfir á tímabili vegna vatnslekans.

Á myndinni sjást slökkviliðsmenn að störfum að dæla vatni úr kennslustofu á Háskólatorgi.

Image
Slökkviliðsmenn dæla vatni út úr kennslustofu á Háskólatorgi

Jarðvísindamenn í eldlínunni

Jarðvísindamenn Háskóla Íslands voru í eldlínunni eftir að jarðskjálftahrina hófst á Reykjanesi 24. febrúar þetta ár. Í kjölfar hennar, 19. mars, hófst svo eldgos í Geldingadal við Fagradalsfjall.

Á myndinni er Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur, með eldgosið í Fagradalsfjalli í baksýn.

Image
Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur

Landið tekur að rísa

Covid-19 veiran tók sér frí á vormánuðum. Líf tók aftur að færast á Háskólasvæðið. Háskólalestin fagnaði tíu ára starfsafmæli og heimsótti þrjá áfangastaði á landsbyggðinni um sumarið. Háskóli unga fólksins var starfræktur 14.-16. júní. Vel var gætt að smit- og sóttvörnum.

Myndin er af starfsfólki Háskólalestarinnar í Bolungarvík.

Image
Háskólalestin í Bolungarvík

Háskólaráð fundar í Alþingishúsinu

Háskólaráð fundaði í Alþingishúsinu 7. október 2021 í tilefni þess að þá voru liðin 110 ár (og fimm dögum betur) síðan kennsla við Háskóla Íslands hófst í húsakynnum Alþingis. Háskólinn var til húsa við Austurvöll allt þar til starfsemi hans var flutt í nýja aðalbyggingu Háskóla Íslands á Melunum 1940.

Image
Háskólaráð á fundi í Alþingishúsinu 7. október 2021

Hraðpróf á Háskólatorgi

Veiran skæða, Covid-19, fór enn einu sinni á flug í nóvember. Í desember var sett upp hraðprófsstöð á Háskólatorgi. Þar gátu gestir og gangandi farið í sýnatöku til að kanna hvort þau væru smituð af veirunni.

Image
Covid-hraðprófsstöð á Háskólatorgi

Hótel Saga

Undir lok ársins var undirritaður samningur um kaup ríkisins og Félagsstofnunar stúdenta á fasteign Bændahallarinnar ehf. við Hagatorg í Reykjavík.

Þar fór fram starfsemi Hótels Sögu um áratuga skeið. Hótelinu var lokað í nóvember 2020.

Með kaupum ríkissjóðs og FS fær húsið nýtt hlutverk. Það verður nýtt undir starfsemi Háskóla Íslands og stúdentaíbúðir. Meðal annars er áætlað að Menntavísindasvið og Upplýsingatæknisvið Háskólans flytji starfsemi sína í bygginguna.

Image
Hótel Saga

Afmælislag

Hljómsveitin Eva, sem skipuð er Sigríði Eir Zophoníasardóttur og Völu Höskuldsdóttur, flytur afmælislag í tilefni af 110 ára afmæli Háskóla Íslands.

Lagið var frumflutt á afmælishátíð starfsfólks HÍ sem haldin var í Hörpu 5. nóvember þetta ár.

Lagið fangar vel tíðarandann á árinu 2021 sem einkenndist í senn af áhrifum heimsfaraldurs og hamfara.