2022

Stórafmælum fagnað á árinu

Tíu ára afmæli Lífvísindaseturs var fagnað í apríl.

Stofnun Rannsóknasetra fagnaði tuttugu ára afmæli í mars. Fyrsta rannsóknasetrið var stofnað á Höfn í Hornafirði árið 2001. Þau eru nú 11 og starfa um allt land.

Þess var minnst að þrjátíu ár voru frá því að fyrsti vefur Háskóla Íslands leit dagsins ljós.

Í nóvember voru 40 ár síðan fyrstu nemendurnir brautskráðust úr félagsráðgjöf við Háskóla Íslands.

 

Nýtt hús fyrir Heilbrigðisvísindasvið

Samningur um fullnaðarhönnun á nýju húsnæði fyrir starfsemi Heilbrigðisvísindasviðs var undirritaður 5. apríl. Áætlað er að húsið rísi á Hringbrautarsvæðinu í nágrenni nýs Landspítala.

Nýbyggingin verður um 8.300 fermetrar og verður ætlunin með henni að sameina nær alla starfsemi Heilbrigðisvísindasviðs á einum stað. Hún mun tengjast Læknagarði, sem jafnframt verður endurgerður.

Á myndinni sést hluti teikningar af nýbyggingunni. Læknagarður er vinstra megin á myndinnni.

Image
Hluti af teikningu af nýju húsnæði Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands

Þúsundasti doktorinn

Qiong Wang, nemandi við Læknadeild Háskóla Íslands, varði doktorsritgerð sína 24. maí. Hún er þúsundasti doktorinn sem lýkur námi frá háskólanum.

Doktorsritgerð Qiong Wang er á sviði líf- og læknavísinda og ber heitið „Auðkenning efnaskiptabreytinga samfara EMT í brjóstaþekjuvef“. Markmið rannsóknarinnar var að auka skilning á framgangi brjóstakrabbameina sem eru helsta dánarorsök meðal kvenna af völdum krabbameins á Íslandi og um heim allan.

Doktorsvörnin fór fram í gegnum netið vegna Covid-19-faraldursins. Aðeins stjórnandi varnarinnar, Þórarinn Guðjónsson, prófessor og deildarforseti við Læknadeild, og leiðbeinendur Qiong Wang voru staddir í Hátíðasal þegar vörnin fór fram.

Image
Frá doktorsvörn Qiong Wang í Hátíðasal Háskóla Íslands 24. maí 2022

IRIS varpar nýju ljósi á rannsóknir

Rannsóknakerfið IRIS (Icelandic Research Information System) var opnað í júní. Með því skapast fjölmargir nýir möguleikar til þess að varpa ljósi á þær fjölbreyttu rannsóknir sem unnar eru innan Háskóla Íslands og samfélagsleg áhrif þeirra.

Kerfið býður upp á yfirlit yfir rannsóknabirtingar og kynningar á rannsóknum, rannsóknaverkefni, aðgengilega rannsóknainnviði og gagnasett úr rannsóknum á vegum stofnana sem opin eru öllum á ytri vef IRIS.

Á myndinni sést rannsóknanet Háskóla Íslands um allan heim.

Image
Rannsóknanet Háskóla Íslands. Skjáskot úr IRIS-rannsóknakerfinu.

Meðal þeirra áhrifamestu

Fjórða árið í röð var Háskóli Íslands á lista Times Higher Education yfir þá háskóla sem hafa mest samfélagsleg og efnhagsleg áhrif út frá heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. HÍ var efstur íslenskra skóla á listanum.

Listinn nefnist Impact Rankings og grundvallast á mati tímaritsins á því hvernig háskólar uppfylla tiltekna mælikvarða sem snerta samfélagsleg og efnahagsleg áhrif um allan heim og framlag til heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna sem eru 17 talsins.

Image
Háskóli Íslands, Aðalbygging

Unnur áhrifamesta vísindakona Evrópu

Unnur Þorsteinsdóttir, forseti Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands og framkvæmdastjóri hjá Íslenskri erfðagreiningu, var áhrifamesta vísindakona Evrópu og sú fimmta áhrifamesta í heiminum samkvæmt lista sem vefurinn Research.com tók saman. Listinn byggðist á greiningu á rannsóknaframlagi yfir 160 þúsund vísindakvenna.

Fram kemur á Research.com að tilvitnanir í rannsóknir sem Unnur hefur komið að eru hátt í 190 þúsund og birtingar hennar rúmlega 460 á því tímabili sem liggur til grundvallar listanum.

Image
Unnur Þorsteinsdóttir

Rektor í hópi áhrifamestu vísindamanna

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands og prófessor í rafmagns- og tölvuverkfræði, hélt stöðu sinni á lista yfir áhrifamestu vísindamenn heims. Nýr listi hins virta greiningarfyrirtækis Clarivate Analytics var birtur í nóvember.

Listinn kallast Highly Cited Researchers og nær til þess eins prósents vísindamanna innan hverrar fræðigreinar sem mest er vitnað til í vísindagreinum sem birtast í alþjóðlegum vísindatímaritum.

Jón Atli Benediktsson er í hópi fremstu vísindamanna heims á sviði fjarkönnunar og stafrænnar myndgreiningar. Fjarkönnun felst m.a. í því að taka stafrænar myndir úr flugvélum, drónum og gervitunglum og vinna úr þeim hvers kyns upplýsingar um yfirborð jarðarinnar.

Image
Jón Atli Benediktsson

Metfjöldi brautskráninga

Laugardaginn 25. júní voru 2.594 kandídatar brautskráðir úr grunn- og framhaldsnámi frá Háskóla Íslands. Aldrei áður höfðu jafn margir verið brautskráðir í einu.

Einnig útskrifaðist metfjöldi frá Endurmenntun HÍ 16. júní, eða samtals 205 kandídatar.

Image
Frá brautskráningu kandídata við Háskóla Íslands í júní 2022

Stærðfræðinemar frá HÍ

Þrír stærðfræðinemar úr Háskóla Íslands urðu hlutskarpastir í íslenska hluta forritunarkeppninnar Nordic Collegiate Programming Contest (NCPC) sem fram fór í Háskólanum í Reykjavík í október.

Liðið var skipað Arnari Ágústi Kristjánssyni, Kára Rögnvaldssyni og Bjarka Baldurssyni. Í keppninni hafði hvert lið yfir einni tölvu að ráða og átti að leysa ellefu stærðfræðilegar og tölvunarfræðilegar þrautir eða dæmi á fimm klukkustundum.

Image
Bjarki Baldursson, Kári Rögnvaldsson og Arnar Ágúst Kristjánsson

Fyrsta sjálfbærniskýrslan

Sjálfbærniskýrsla Háskóla Íslands fyrir árið 2021 var gefin út í desember. Hún er fyrsta sinnar tegundar hjá íslenskum háskólum.

Í henni er horft yfir víðfeðmt starf skólans út frá sjálfbærni og er hún mikilvægt skref fyrir HÍ að verða leiðandi á því sviði.

Aukinn þrýstingur er á háskóla á alþjóðavísu að gera grein fyrir, með mælanlegum hætti, hvernig starf skólans styður við sjálfbærni og eru úttektir á þessu meðal annars notaðar við röðun háskóla á alþjóðlegum matslistum.

Image
Flúðir. Fjallið Skjaldbreiður í fjarska

Háskóli unga fólksins verðlaunaður

Háskóli unga fólksins hlaut viðurkenningu fyrir vísindamiðlun sem afhent var við opnun Vísindavöku Rannís laugardaginn 1. október.

Háskóli unga fólksins er fyrir fróðleiksfúsa og fjöruga krakka á aldrinum 12-14 ára sem vilja kynnast vísindum og fræðum með vísindafólki Háskóla Íslands, en verkefnið hefur verið starfrækt síðan 2004.

Hugmyndafræðin bak við Háskóla unga fólksins er að opna háskólann og kynna hann fyrir komandi kynslóðum.

Image
Fulltrúar Háskóla unga fólksins taka við viðurkenningu Rannís fyrir vísindamiðlun á Vísindavöku 1. október 2022

Félagsráðgjöf háskólanema

Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands opnaði í september Félagsráðgjöf háskólanema sem veita mun háskólanemum og fjölskyldum þeirra ráðgjöf sem m.a. snertir fjölskyldumálefni, uppeldi og samskipti.

Markmiðið með Félagsráðgjöf háskólanema er í senn að þjálfa nemendur í starfsréttindanámi í félagsráðgjöf í að veita faglega ráðgjöf og bjóða háskólanemum stuðning í erfiðum málum sem þeir kunna að glíma við.

Á myndinni er Selma Björk Hauksdóttir, aðjunkt og umsjónarmaður verkefnisins ásamt tveimur nemendum í félagsráðgjöf, þeim Kristrúnu Sigríði Bóasdóttur og Söru Sólrúnu Aðalsteinsdóttur.

Mynd: Árni Torfason

Image

Framkvæmdir á Sögu

Endurbætur hófust í húsinu sem áður hýsti Hótel Sögu. Þangað er áætlað að Menntavísindasvið flytji starfsemi sína. Í þessari myndasyrpu eru nokkrar myndir frá framkvæmdum í byggingunni, teknar á árinu. Ljósmyndari er Kristinn Ingvarsson.