2023

Stórafmæli á árinu

Endurmenntun HÍ fagnaði 40 ára afmæli árinu.

Þess var minnst að 50 ár voru síðan kennsla í hjúkrunarfræði hófst við Háskóla Íslands.

Framúrskarandi á ýmsum sviðum

Á árinu var Háskóli Íslands í hópi þeirra 400 háskóla sem hafa mest samfélagsleg og efnhagsleg áhrif út frá heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna samkvæmt lista tímaritsins Times Higher Education (THE).

Þá var Háskólinn í 505. sæti á lista THE yfir bestu háskóla heims, efstur íslenskra háskóla.

Einnig var HÍ á 10 listum yfir fremstu skóla heims á afmörkuðum fræðasviðum á hinum virta lista Shanghai Global Ranking of Academic Subjects og á níu sambærilegum listum tímaritsins Times Higher Education.

Edda opnuð

Hús íslenskunnar var opnað síðasta vetrardag, 19. apríl, þetta ár. Við sama tækifæri fékk húsið nafnið Edda, að undangenginni nafnasamkeppni. Daginn eftir var almenningi boðið að skoða húsið.

Í Eddu verður fjölbreytt starfsemi Íslensku- og menningardeildar Háskóla Íslands og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Þar eru sérhönnuð rými s.s. fyrir varðveislu, rannsóknir og sýningu á fornum íslenskum skinnhandritum, vinnustofur kennara og fræðimanna, lesrými fyrir háskólanema, fyrirlestra- og kennslusalir, skrifstofur og bókasafn.

Í nóvember hlaut Edda Hönnunarverðlaun Íslands, sem staður ársins, fyrir að vera einkennandi og áhrifamikil bygging sem sameinar varðveislu og aðgengi almennings að íslenskum menningarverðmætum til framtíðar.

Image

Samstarf við Háskólann á Hólum

Í ágúst var undirrituð viljayfirlýsing um aukið samstarf Háskóla Íslands og Háskólans á Hólum eða mögulega sameiningu skólanna.

Rektorar beggja skóla leggja áherslu á að aukið samstarf eða sameining skili fjölbreyttara námsframboði, öflugri rannsóknum og auknum tengslum við atvinnulíf og samfélag.

Á myndinni eru Hólmfríður Sveinsdóttir, rektor Háskólans á Hólum, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands við undirritun samningsins.

Image
Hólmfríður Sveinsdóttir, rektor Háskólans á Hólum, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands

Gervigreindin alltumlykjandi

Gervigreind var mikið í umræðunni á árinu. Gervigreind færir með sér ýmis tækifæri í starfi háskóla en einnig áskoranir sem tengjast m.a. rannsóknum, kennslu, verkefnavinnu og próftöku.

Hröð þróun gervigreindar á árinu gerði það nauðsynlegt að setja fram leiðbeiningar og reglur um notkun hennar í háskólastarfi.

Image
Aðalbygging Háskóla Íslands

Tilraunastofa í stjarneðlisfræði

Í september var opnuð ný tilraunastofa fyrir stjarneðlisfræði í byggingunni VR-III sem ber nafnið Skuggsjá. Tilraunastofan, sem er að hluta til fjármögnuð af svokölluðu CMBeam-verkefni sem nýtur stuðnings Evrópska rannsóknaráðsins, verður notuð við hönnun og kvörðun á örbylgjusjónaukum framtíðarinnar, sjónaukum sem ætlað er að fræða okkur meira um sögu alheimsins.

Á myndinni eru Sigurður Magnús Garðarsson, sviðsforseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs, Jón Emil Guðmundsson, lektor í stjarneðlisfræði og Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ

Image
Sigurður Magnús Garðarsson, sviðsforseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs, Jón Emil Guðmundsson, lektor í stjarneðlisfræði og Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ

Oculis skráð á Nasdaq

Augnlyfjaþróunarfyrirtækið Oculis, eitt af sprotafyrirtækjum HÍ, var skráð í bandarísku kauphöllina Nasdaq í mars. Þetta er fyrsta sprotafyrirtæki Háskóla Íslands sem nær þessum árangri.

Að baki fyrirtækinu standa Einar Stefánsson, prófessor emeritus í augnlækningum, og Þorsteinn Loftsson, prófessor emeritus í lyfjafræði.

Uppfinning vísindamannanna tveggja snýst um þróun augndropa sem útrýmir sprautunálum. Svokallaðar nanóagnir úr sýklódextrínum hafa verið þróaðar til að ferja lyf í augndropunum frá yfirborði augans til bakhluta þess.

Image
Þorsteinn Loftsson og Einar Stefánsson kampakátir í höfuðstöðvum Nasdaq-kauphallarinnar í New York í gær.

Pólska við háskólann

Pólska var í fyrsta sinn tekin upp sem námsgrein við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands um haustið þetta ár. Áður hafði pólska verið kennd á námskeiðum við Tungumálamiðstöð HÍ.

Eyjólfur Már Sigurðsson, forstöðumaður Tungumálamiðstöðvar, sagði það löngu tímabært að hefja kennslu í pólskum fræðum við Háskóla Íslands, enda sé pólska annað mest talaða málið á Íslandi með um það bil 30.000 málhafa.

Mariola Alicja Fiema var ráðin aðjunkt í pólskum fræðum.

Á myndinni eru Katarzyna Rabeda, kennari á pólskunámskeiði Tungumálamiðstöðvar HÍ, og Eyjólfur Már Sigurðsson, forstöðumaður Tungumálamiðstöðvar.

Image
Katarzyna Rabeda, kennari á pólskunámskeiði Tungumálamiðstöðvar HÍ, og Eyjólfur Már Sigurðsson, forstöðumaður Tungumálamiðstöðvar.

Geimrannsóknir

Í maí var undirrituð viljayfirlýsing um samstarf við Geimvísindastofnun Íslands (Iceland Space Agency) um samstarf á sviði geimrannsókna.

Í viljayfirlýsingunni felst m.a. að skoðaður verði fýsileiki þess að setja á stofn sérstaka geimrannsóknastofnun hér á landi.

Innan Háskóla Íslands býr mikil þekking í fræðigreinum sem tengjast geimrannsóknum með ýmsum hætti, svo sem á sviði fjarkönnunar, jarðvísinda, náttúruvísinda og gervigreindar.

Á myndinni sjást Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ og Daniel Leeb, framkvæmdastjóri Geimvísindastofnunar Íslands handsala viljayfirlýsinguna. Með á myndinni er Sigurður Magnús Garðarsson, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs.

Image
Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ og Daniel Leeb, framkvæmdastjóri Geimvísindastofnunar Íslands handsala viljayfirlýsingu um samstarf á sviði geimrannsókna. Með á myndinni er Sigurður Magnús Garðarsson, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs.

Nýtt hús Heilbrigðisvísindasviðs

Í júlí var tekin fyrsta skóflustunga að nýju húsi Heilbrigðisvísindasviðs. Húsið mun gjörbylta aðstöðu til kennslu og rannsókna í heilbrigðisvísindum. Í því munu nær allar deildir Heilbrigðisvísindasviðs sameinast í nýrri rannsókna- og kennslubyggingu. Áætlað er að húsið verði risið á Hringbrautarsvæðinu í nágrenni nýs Landspítala síðla árs 2026. Það verður hátt í 10.000 fermetrar að flatarmáli.

Á myndinni eru þau sem tóku fyrstu skóflustunguna. Þau eru, frá vinstri: Sigríður Helga Kárdal Ásgeirsdóttir, nemandi í sálfræði, Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítala, Ásdís Halla Bragadóttir, ráðuneytissjóri Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins, Jón Atli Benediktsson Háskólarektor, Unnur Þorsteinsdóttir, forseti Heilbrigðisvísindasviðs og Daníel Thor Myer, nemandi í læknisfræði.

Image
Fyrsta skóflustunga að nýju húsnæði Heilbrigðisvísindasviðs HÍ: Sigríður Helga Kárdal Ásgeirsdóttir, nemandi í sálfræði, Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítala, Ásdís Halla Bragadóttir, ráðuneytissjóri Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins, Jón Atli Benediktsson Háskólarektor, Unnur Þorsteinsdóttir, forseti Heilbrigðisvísindasviðs og Daníel Thor Myer, nemandi í læknisfræði.

Með fróðleik í fararnesti

Samstarfsverkefni Ferðafélags Íslands og Háskóla Íslands „Með fróðleik í fararnesti“, hlaut viðurkenningu fyrir vísindamiðlun sem afhent var við opnun Vísindavöku Rannís 30. september.

Með fróðleik í fararnesti eru fræðandi gönguferðir í náttúrunni þar sem fræða- og vísindafólk HÍ miðlar af þekkingu sinni til almennings, barna og ungmenna um fjölbreyttar rannsóknir, ekki síst á lífríki og umhverfi.

Á myndinni eru fulltrúar Háskóla Íslands og Ferðafélags Íslands ásamt Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við afhendingu vísindamiðlunarverðlaunanna.

Image
Með fróðleik í fararnesti hlýtur viðurkenningu fyrir vísindamiðlun sem afhent var við opnun Vísindavöku Rannís 30. september 2023