1911

Háskóli Íslands stofnaður 17. júní 1911

Háskóli Íslands stofnaður 17. júní 1911 á aldarafmæli Jóns Sigurðssonar. Með þessu sköpuðust skilyrði fyrir íslenska vísindastarfsemi og markaði stofnun skólans tímamót í menningarlífi þjóðarinnar. Stofnunarhátíð háskólans var haldin í neðrideildarsal Alþingishússins. Stúdentar voru 45 að tölu, 5 í guðfræðideild, 17 í lagadeild og 23 í læknadeild en í heimspekideild var enginn skráður. Skólinn fékk inni á neðri hæð Alþingishússins sem átti eftir að vera samastaður hans í nærri þrjá áratugi.

Fastir kennarar voru alls 11 að tölu, 9 prófessorar og 2 dósentar og 7 aukakennarar, allir í læknadeild. Háskólinn var settur í fyrsta sinn mánudaginn 2. október 1911 en reglugerð skólans var undirrituð 4. október, tveimur dögum eftir að skólinn tók til starfa.

Image
Skrúðganga á gatnamótum í Reykjavík 17. júní 1911

Vígsluræða rektors Háskóla Íslands

Stofnun Háskóla Íslands var órjúfanlega tengd baráttu Íslendinga fyrir sjálfstæðu þjóðríki og því var rökrétt að skólinn væri formlega stofnaður á Alþingi á aldarafmæli Jóns Sigurðssonar. Fyrsti rektor skólans, Björn M. Ólsen, prófessor í íslenskri tungu og menningarsögu, nefndi það í vígsluræðu sinni að hann hefði vonir um að framtíðin yrði björt fyrir sjálfstæðar vísindarannsóknir á norðurhjara þótt háskólinn væri lítill og nýr.

Björn M. Ólsen rektor fjallaði um sannleiksleitina í ræðu sinni og lýsti því yfir að það væri markmið hins nýstofnaða háskóla að vera vísindaleg rannsóknastofnun og vísindaleg fræðslustofnun. Til að ná þessu markmiði væri nauðsynlegt að háskólinn hefði fullkomið rannsóknafrelsi og kennslufrelsi. Hann lagði jafnframt áherslu á að Háskóli Íslands yrði að rækta erlent samstarf.

Image
Mannfjöldi á Austurvelli í Reykjavík 1911

Alþingishúsið við Austurvöll

Alþingishúsið, þar sem Háskóli Íslands var til húsa fyrstu 29 árin.

Image
Alþingishúsið við Austurvöll

Guðfræðideild

Jón Helgason, prófessor í guðfræðideild. Háskólarektor skólaárið 1914-1915.

Guðfræðideild er jafnan talin elst deilda Háskóla Íslands þar sem Prestaskólinn var elstur þeirra þriggja embættismannaskóla sem sameinaðir voru og mynduðu Háskóla Íslands ásamt heimspekideild árið 1911 en Prestaskólinn tók til starfa 1847. Löngum var litið á guðfræðideildina sem prestaskóla fyrst og fremst og námið við það miðað. Jón Helgason, fyrrverandi forstöðumaður Prestaskólans, var kjörinn fyrsti forseti guðfræðideildar.

Image
Jón Helgason, háskólarektor

Lagadeild

Lárus H. Bjarnason, prófessor í Lagadeild. Háskólarektor 1913-1914.

Lagaskóli tók til starfa á Íslandi 1. október 1908 eftir rúmlega hálfrar aldar baráttu Íslendinga fyrir því að lagakennsla flyttist frá Danmörku til Íslands. Hann starfaði í þrjú ár, kennarar voru þrír og nemendur urðu samtals 15.

Enginn brautskráðist þó frá skólanum þar sem nemendurnir gengu inn í lagadeild Háskóla Íslands við stofnun hans árið 1911 og luku þaðan prófi. Kennarar Lagaskólans urðu prófessorar við lagadeildina og fyrstu laganemarnir luku þaðan embættisprófi vorið 1912. Lárus H. Bjarnason, sem gegnt hafði starfi forstöðumanns Lagaskólans og varð síðar rektor Háskóla Íslands (1913-1914), var kjörinn fyrsti forseti lagadeildar.

Image
Lárus H. Bjarnason, háskólarektor

Læknadeild

Guðmundur Magnússon, prófessor í Læknadeild. Háskólarektor 1912-1913.

Kennsla í læknisfræði hófst formlega árið 1876 í Læknaskólanum. Guðmundur Magnússon, fyrrverandi kennari við Læknaskólann og síðar rektor Háskóla Íslands (1912-1913), var kosinn fyrsti forseti læknadeildar.

Image
Guðmundur Magnússon, háskólarektor

Heimspekideild

Ágúst H. Bjarnason, prófessor í heimspekideild. Háskólarektor 1927-1918 og 1928-1929.

Þrátt fyrir að enginn nemandi væri skráður til náms í hinni nýju heimspekideild 1911 var deildinni kosinn forseti, Ágúst H. Bjarnason.

Image
Ágúst H. Bjarnason, háskólarektor