1936

Stúdentar og verkamenn sem unnu við að grafa grunn háskólabyggingar

Stúdentar og aðrir verkamenn sem unnu við að grafa grunn háskólabyggingar síðsumars 1936. Myndin tekin við stúdentagarðinn. Guðjón Klemensson læknir átti myndina.

Image

Alþingi samþykkir beiðni nemenda

Alþingi samþykkir beiðni nemenda heimspekideildar sem fóru fram á að þeir fengju einkarétt á kennaraembættum í íslenskri sögu, tungu og bókmenntum við ríkisskólana. Áður höfðu nemendur deildarinnar ekki haft forgang að störfum hjá ríkinu.

Image
Alþingishúsið við Austurvöll

Ný heildarlög um Háskóla Íslands

Konungur undirritar ný heildarlög um Háskóla Íslands í byrjun febrúar, hin fyrstu frá upphaflegum lögum frá árinu 1909. Í nýju lögunum var kveðið á um fimmtu deildina við háskólann, atvinnudeild. Bygging húss fyrir atvinnudeildina, norðan við Aðalbyggingu, hófst um sumarið.

Image
Atvinnudeildarhús Háskóla Íslands

Stjórnarnefnd Árnastofnunar í Kaupmannahöfn

Stjórnarnefnd Árnastofnunar í Kaupmannahöfn, Den Arnamagnæanske Kommission, með fulltrúum frá Háskóla Íslands. Nefndin er hér á fundi 14. september 1936.

Sitjandi frá vinstri:

  • Axel Lindvald
  • Árni Pálsson
  • Carl S. Petersen
  • Sigurður Nordal (sem hefur átt fimmtugsafmæli þennan dag).

Standandi frá vinstri:

  • Jón Helgason
  • Ejnar Munksgaard bókaútgefandi
  • Johannes Brøndum-Nielsen
  • Einar Arnórsson
  • Erik Arup, formaður nefndarinnar.

Á myndina vantar Halldór Hermannsson og Paul Nørlund.

Image
Stjórnarnefnd Árnastofnunar í Kaupmannahöfn

Grunnur að Aðalbyggingu

Hornsteinn var lagður að Aðalbyggingu á hátíðisdegi stúdenta, 1. desember. Fjölmiðlar hömpuðu þessum merkisviðburði og tengdu hann við þjóðfrelsisbaráttu Íslendinga. Morgunblaðið minnti lesendur líka á þá staðreynd að byggingin ætti að verða fullgerð árið 1940, eða á sama tíma og hefja mátti endurskoðun sambandslagasamningsins frá árinu 1918.