1961

Grunnur að samkomulagi um fornhandrit

Þjóðþing Danmerkur samþykkir lög þess efnis að afhenda Íslendingum megnið af íslenskum fornhandritum í varðveislu danskra safna. Lögin, sem þjóðþingið danska samþykkti og voru grunnurinn að samkomulagi þjóðanna, voru síðan endanlega staðfest af hæstarétti Danmerkur með dómi árið 1971. Var sáttmálinn fullgiltur 1. apríl 1971 og lauk þar með handritadeilum þjóðanna sem staðið höfðu um áratuga skeið. Árnastofnun tók handritin til varðveislu.

Tilurð Handritastofnunar Íslands

Á 50 ára afmælishátíð háskólans, 6. október 1961, lýsir menntamálaráðherra því yfir fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands að ákveðið hafi verið að leggja fram frumvarp á Alþingi um stofnun Handritastofnunar Íslands. Var það gert og samþykkt sem lög frá Alþingi 14. apríl 1962.

Hálfrar aldar afmæli Háskóla Íslands

Haldið upp á hálfrar aldar afmæli Háskóla Íslands, föstudaginn 6. október, í Háskólabíói, sem var einmitt vígt við þetta tækifæri, að viðstöddum forseta Íslands og forsetafrú, ríkisstjórn Íslands, fulltrúum erlendra háskóla og ýmsum öðrum gestum, kennurum og stúdentum.

Saga Háskóla Íslands: Yfirlit um hálfrar aldar starf

Í tilefni af 50 ára afmæli Háskólans árið 1961 var gefin út bókin Saga Háskóla Íslands: Yfirlit um hálfrar aldar starf. Guðni Jónsson prófessor samdi bókina.

Háskólabíó vígt

Háskólabíó var vígt 6. október á hálfrar aldar afmæli Háskóla Íslands. Háskólabíósbyggingin er hönnuð af Gunnlaugi Halldórssyni og Guðmundi Kr. Kristinssyni og reist á árunum 1956-1961. Háskólabíó er kvikmynda-, ráðstefnu- og tónleikahús sem stendur við Hagatorg í Vesturbæ Reykjavíkur.

Það er í eigu Sáttmálasjóðs en árið 1941 var ákveðið að sjóðurinn skyldi eiga og reka kvikmyndahús háskólans sem upphaflega var opnað í Tjarnarbíói 1942. Háskólinn leigir sali hússins undir kennslustofur á daginn þegar ekki eru þar kvikmyndasýningar. Húsið hefur verið aðaltónleikahús Sinfóníuhljómsveitar Íslands frá upphafi. Á árunum 1985-1990 var reist viðbygging við húsið sem hýsir skrifstofur og minni sýningarsali. Árið 2002 hætti Háskóli Íslands rekstri á kvikmyndasýningum í Háskólabíói.

Loftmynd af háskólasvæðinu

Loftmynd af háskólasvæðinu, Aðalbyggingu Háskóla Íslands, Þjóðminjasafninu, Suðurgötu, Melavellinum og Setbergi (húsi atvinnudeildarinnar).

Image
Loftmynd af háskólasvæðinu, Aðalbyggingu Háskóla Íslands, Þjóðminjasafninu, Suðurgötu, Melavellinum og Setbergi (húsi atvinnudeildarinnar)