1996

Æviráðningar starfsmanna ríkisins afnumdar

Með breytingum á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins frá 1. júní þetta ár eru æviráðningar starfsmanna ríkisins afnumdar, embættismenn hafa síðan verið ráðnir til fimm ára í senn.

Aðstoðarmannasjóður stofnaður

Aðstoðarmannasjóður stofnaður um sumarið. Markmið hans var að gera kennurum kleift að ráða stúdenta eða nýbrautskráða námsmenn sem aðstoðarmenn við rannsóknir og/eða kennslu. Þannig ættu aðstoðarmennirnir að þjálfast í faglegum vinnubrögðum og létta einfaldari verkum af kennara sínum.

Samstarf HÍ og HA

Háskólinn á Akureyri hefur verið kallaður „lyftistöng Akureyrar“, og við hann átti Háskóli Íslands vaxandi samstarf á áratugnum. Sveinbjörn Björnsson, rektor Háskóla Íslands, og Þorsteinn Gunnarsson, rektor Háskólans á Akureyri, handsöluðu samning um samstarf skólanna 8. nóvember 1996.

Kvennasögusafn Íslands opnað í Þjóðarbókhlöðu

Kvennasögusafn Íslands opnað með viðhöfn 5. desember þetta ár í Þjóðarbókhlöðu og sýning sett upp af því tilefni. Kvennasögusafn Íslands hefur starfað sem sérstök eining innan Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns í Þjóðarbókhlöðu æ síðan. Safnið var stofnað 1. janúar árið 1975. Nám í kvennafræðum hefst einnig við Háskóla Íslands þetta ár.

Íslensk erfðagreining stofnuð og er til húsa í útjaðri háskólalóðarinnar

Kári Stefánsson stofnar þekkingarfyrirtækið Íslenska erfðagreiningu þetta ár sem er til húsa í túnfætinum á háskólalóðinni. Kári lauk doktorsprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands árið 1988 og eftir sérfræðistörf erlendis kom hann til landsins og varð forstöðumaður Tilraunastöðvar Háskóla Íslands að Keldum um stutt skeið áður en hann stofnaði Íslenska erfðagreiningu. Fyrirtækið hefur náð gríðarlegum árangri í rannsóknum á mannerfðafræði og hefur samstarf þess við Háskóla Íslands aukist mikið. Kári Stefánsson er rannsóknaprófessor við Háskóla Íslands.

Tveggja ára ljósmóðurnám fært til hjúkrunarfræðideildar HÍ

Í ársbyrjun þetta ár er tveggja ára ljósmóðurnám fært til hjúkrunarfræðideildar Háskóla Íslands. Þegar Háskóli Íslands fagnar aldarafmæli eru 250 ár liðin frá því að skipulegt nám í ljósmóðurfræðum hófst hér á landi. Í dag þarf nemandi að stunda nám í heila tvo áratugi til að verða ljósmóðir, tíu ár í grunnskóla, fjögur í framhaldsskóla og sex ár í háskóla. Aukin menntun á sjálfsagt sinn þátt í því að ungbarnadauði hefur hin síðari ár hvergi verið minni í öllum heiminum en á Íslandi.

Á myndinni sést Rósa ljósmóðir og móðir með nýfætt barn. Myndin birtist í Árbók Háskóla Íslands árið 2000.

Image
Á myndinni sést Rósa ljósmóðir og móðir með nýfætt barn.