1997

Fyrstu almennu rammalögin um háskóla og háskólastigið á Íslandi samþykkt á Alþingi

Fyrstu almennu rammalögin um háskóla og háskólastigið á Íslandi samþykkt á Alþingi í árslok. Þar voru m.a. dregin fram þau meginskilyrði sem skóli þarf að uppfylla til að geta talist háskóli sem veitir háskólagráðu við námslok. Með lögunum voru markmið starfseminnar skilgreind, sjálfstæði skólanna betur tryggt en áður og m.a. kveðið á um innra og ytra eftirlit með gæðum kennslu og rannsókna.

Fyrsta jafnréttisnefnd háskólaráðs tekur til starfa

Fyrsta jafnréttisnefnd háskólaráðs tekur til starfa.

Frá vinstri:

  • Þorgerður Einarsdóttir
  • Eva Steinsson
  • Valgerður Edda Benediktsdóttir
  • Páll Hreinsson
  • Óskar Óskarsson
  • Sigríður Þorgeirsdóttir formaður
  • Sigrún Valgarðsdóttir.
Image
Fyrsta jafnréttisnefnd háskólaráðs. Frá vinstri: Þorgerður Einarsdóttir, Eva Steinsson, Valgerður Edda Benediktsdóttir, Páll Hreinsson, Óskar Óskarsson, Sigríður Þorgeirsdóttir formaður, Sigrún Valgarðsdóttir.

Lýkur skipulögðu doktorsnámi samkvæmt nýjum reglum Háskóla Íslands

Fyrst til að ljúka skipulögðu doktorsnámi frá Háskóla Íslands undir handleiðslu leiðbeinanda skólans, eftirliti doktorsnefndar og samkvæmt nýjum reglum skólans um doktorsnám er Hafrún Friðriksdóttir sem lýkur námi í lyfjafræði 8. febrúar 1997. Hafrún er fyrsti lyfjafræðingurinn sem ver doktorsritgerð við Háskóla Íslands og jafnframt önnur konan sem ver doktorsritgerð við skólann.

Háskóli Íslands útskrifaði níu doktora úr fjórum deildum árið 2003 og árið 2004 voru brautskráðir 10 doktorar úr fjórum deildum. Síðan tók Háskólinn flugið í doktorsvörnum. Árið 2009 voru brautskráðir 32 doktorar. Fjöldi doktorsnema við Háskóla Íslands var 497 manns í febrúar 2011.

Image
Doktorsvörn Hafrúnar Friðriksdóttur - laugardaginn 8. febrúar 1997

Fyrsti kvendeildarforseti Háskóla Íslands

Helga Kress bókmenntafræðingur er fyrsta konan sem kjörin er deildarforseti í Háskóla Íslands 1997-1999, við heimspekideild. Áður voru tvær konur varadeildarforsetar, þær Margrét Guðnadóttir í læknadeild og Álfrún Gunnlaugsdóttir í heimspekideild.

Helga var sett lektor í íslensku fyrir erlenda stúdenta 1970 og skipuð árið 1971. Helga gegndi einnig fyrst kvenna lektorsstöðu við Háskóla Íslands. Hún er þó án efa þekktust fyrir brautryðjendastörf sín á sviði kvennafræða. Hún var fyrsti forstöðumaður og um leið formaður stjórnar, Rannsóknastofu í kvennafræðum. Hið sama gildir um kennslu í kvennafræðum. Helga var skipuð prófessor í almennri bókmenntafræði við heimspekideild Háskóla Íslands, með forsetabréfi, dags. 19. júní 1991 en hún er prófessor emeritus frá 1. október 2010.

Image
Helga Kress

Heimsókn Kofis Annan aðalritara SÞ og Gerhards Skoldenberg

Kofi Annan aðalritari Sameinuðu þjóðanna og Gerhard Skoldenberg heimsækja Háskóla Íslands þann 4. september þetta ár.