1999

Ráðningarvald fært alfarið til Háskóla Íslands

Með nýjum háskólalögum var ráðningarvaldið alfarið fært frá menntamálaráðuneyti yfir til Háskóla Íslands. Þar með hefur rektor skólans á höndum að ráða prófessora jafnt sem dósenta og lektora. Með lögunum færðist umboð til að stofna nýjar námsbrautir frá menntamálaráðuneytinu til háskólans sjálfs. Þar með hafði verið stigið stórt skref til sjálfræðis.

Þann 5. október þetta ár undirrituðu fulltrúar menntamálaráðuneytisins og háskólans þjónustusamning um fjármögnun kennslu sem byggðist á sérstöku reiknilíkani til að meta kennslukostnað í einstökum greinum. Samningurinn breytti fjárhagsstöðu Háskóla Íslands og tryggði að fjárveitingar yrðu í samræmi við nemendafjölda og virkni nemenda í námi. Í lögunum kemur fram að Háskóli Íslands skuli m.a. sinna endurmenntun og miðla fræðslu til almennings. Með samningnum var einnig gert ráð fyrir sérstökum greiðslum fyrir nemendur sem luku meistara- og doktorsnámi.

Stuttar hagnýtar námsleiðir við Háskóla Íslands

Um haustið er tekin upp sú nýbreytni í Háskóla Íslands að bjóða upp á stuttar, hagnýtar námsleiðir. Nám á þessum námsleiðum tekur að jafnaði um eitt og hálft ár (45 einingar) og lýkur með sjálfstæðu diplómaprófi. Tólf nýjar námsleiðir voru auglýstar og skráðu um 220 nemendur sig til náms á þeim. Að því loknu var ákveðið að hefja kennslu á níu námsleiðanna.

Fyrsti háskólafundurinn haldinn í Hátíðasal Háskóla Íslands

Fyrsti háskólafundurinn haldinn í Hátíðasal Háskóla Íslands 4.-5. nóvember þetta ár. Fundinn sátu um 40 fulltrúar deilda og námsbrauta, stúdenta, stofnana og félaga starfsmanna háskólans, menntamálaráðherra og Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns. Enn fremur sátu fundinn fulltrúar í háskólaráði, formenn starfsnefnda ráðsins, framkvæmdastjórar stjórnsýslu, aðstoðarmaður rektors og skrifstofustjóri rektorsskrifstofu.

Háskólafundur var síðar kallaður Háskólaþing með nafnbreytingu. Háskólaþing er samráðsvettvangur háskólasamfélagsins þar sem fram fer umræða um þróun og eflingu Háskóla Íslands. Háskólaþing fjallar um og tekur þátt í að móta sameiginlega vísinda- og menntastefnu Háskóla Íslands að frumkvæði rektors.

Image
Fyrsti háskólafundurinn haldinn árið 1999. Fundargestir þess fyrsta fundar stilla sér upp fyrir framan Aðalbyggingu Háskóla Íslands.