
Um þessar mundir eru 50 ár frá því að Reiknistofnun Háskóla Íslands var sett á laggirnar og um leið hálf öld frá því að tölvuöld hófst á Íslandi. Hlutverk Reiknistofnunar hefur tekið stakkaskiptum á þessum tíma og í dag þjónar hún tugþúsundum í tölvumálum.
Reiknistofnun hóf starfsemi sína í desember 1964, skömmu eftir að Háskóli Íslands fékk að gjöf IBM 1620 vél frá Framkvæmdabankanum. Fram kemur í yfirliti yfir sögu Reiknistofnunar að Ármann Snævarr, sem þá var háskólarektor, hafi sagt að þar væri á ferðinni ein mesta gjöf sem háskólanum hefði nokkru sinni borist. Í þá tíð var ekki talað um tölvu heldur rafreikni, rafeindareiknivél eða rafheila og var honum komið fyrir í kjallara húss Raunvísindastofnunar við Dunhaga sem þá var enn í byggingu. Orðið tölva leit hins vegar ekki dagsins ljós fyrr en árið 1965 og er það hugsmíð Sigurðar Nordals, fyrrverandi rektors Háskóla Íslands.
Fyrsta „tölva“ háskólans var ansi ólík því tæki sem við þekkjum í dag undir sama nafni því hún var geysi fyrirferðarmikil og hafði aðeins 40.000 stafa minni sem svarar til 0,04 megabæta. Inntaks/úttakstæki voru ritvél, gataspjaldalesari og gatari. Enginn prentari var tengdur henni og heldur ekki diskar eða disklingar af neinu tagi. Helsta hlutverk vélarinnar var að vinna flókna útreikninga og þaðan er nafn Reiknistofnunar fengið.
Í nýjasta hefti RHÍ frétta, fréttabréfi Reiknistofnunar sem helgað er hálfrar aldar afmæli stofnunarinnar, kemur fram að fyrsta tölvan hafi bæði nýst kennurum og nemendum og nemendur hafi átt mikinn þátt í að innleiða tölvunoktun í greinar eins og verkfræði og raunvísindum. Atvinnulífið tók hana einnig í sína notkun, m.a. til að para saman hrúta og ær, við tölfræðilega úrvinnslu tilrauna og úrvinnslu síldargagna.