Header Paragraph

Rafheilinn markaði upphaf Reiknistofnunar

Image
Fyrsta tölvan sem Háskóli Íslands eignaðist. Tímamynd Pétur. Myndin er úr Þjóðminjasafni.

Um þessar mundir eru 50 ár frá því að Reiknistofnun Háskóla Íslands var sett á laggirnar og um leið hálf öld frá því að tölvuöld hófst á Íslandi. Hlutverk Reiknistofnunar hefur tekið stakkaskiptum á þessum tíma og í dag þjónar hún tugþúsundum í tölvumálum.

Reiknistofnun hóf starfsemi sína í desember 1964, skömmu eftir að Háskóli Íslands fékk að gjöf IBM 1620 vél frá Framkvæmdabankanum. Fram kemur í yfirliti yfir sögu Reiknistofnunar að Ármann Snævarr, sem þá var háskólarektor, hafi sagt að þar væri á ferðinni ein mesta gjöf sem háskólanum hefði nokkru sinni borist. Í þá tíð var ekki talað um tölvu heldur rafreikni, rafeindareiknivél eða rafheila og var honum komið fyrir í kjallara húss Raunvísindastofnunar við Dunhaga sem þá var enn í byggingu. Orðið tölva leit hins vegar ekki dagsins ljós fyrr en árið 1965 og er það hugsmíð Sigurðar Nordals, fyrrverandi rektors Háskóla Íslands.

Fyrsta „tölva“ háskólans var ansi ólík því tæki sem við þekkjum í dag undir sama nafni því hún var geysi fyrirferðarmikil og hafði aðeins 40.000 stafa minni sem svarar til 0,04 megabæta. Inntaks/úttakstæki voru ritvél, gataspjaldalesari og gatari. Enginn prentari var tengdur henni og heldur ekki diskar eða disklingar af neinu tagi. Helsta hlutverk vélarinnar var að vinna flókna útreikninga og þaðan er nafn Reiknistofnunar fengið.

Í nýjasta hefti RHÍ frétta, fréttabréfi Reiknistofnunar sem helgað er hálfrar aldar afmæli stofnunarinnar, kemur fram að fyrsta tölvan hafi bæði nýst kennurum og nemendum og nemendur hafi átt mikinn þátt í að innleiða tölvunoktun í greinar eins og verkfræði og raunvísindum. Atvinnulífið tók hana einnig í sína notkun, m.a. til að para saman hrúta og ær, við tölfræðilega úrvinnslu tilrauna og úrvinnslu síldargagna.

Text

Á myndinni sést IBM 1620-II vélin, fyrsta tölva landsins, og starfsmenn RHÍ í kjallara nýbyggingar Raunvísindastofnunar háskólans. Rafeindareiknirinn kominn á sinn stað í Raunvísindastofnun í desember 1964.

Frá vinstri: Þórhallur M. Einarsson, tæknimaður hjá IBM á Íslandi, Ragnar Ingimarsson verkfræðingur, Helgi Sigvaldason verkfræðingur, Oddur Benediktsson verkfræðingur og Magnús Magnússon prófessor. Ragnar, Helgi og Oddur störfuðu við rafendareikninn fyrst um sinn.

Image
Image
IBM 1620-II tölvan og starfsmenn RHÍ í kjallara nýbyggingar Raunvísindastofnunar háskólans. Frá vinstri: Þórhallur M. Einarsson, tæknimaður hjá IBM á Íslandi, Ragnar Ingimarsson verkfræðingur, Helgi Sigvaldason verkfræðingur, Oddur Benediktsson verkfræðingur, Magnús Magnússon prófessor. Ragnar, Helgi og Oddur störfuðu við rafendareikninn fyrst um sinn.

Bruni í Sumarhúsum

Reiknistofnun hefur verið á ýmsum stöðum á háskólasvæðinu, m.a. í VR-I, húsi verkfræði- og raunvísindadeildar, á áttunda áratugnum. Í yfirliti yfir sögu stofnunarinnar kemur fram að starfsfólkið hafi haft aðstöðu í timburhúsi við suðurenda VR I, húsi sem var í daglegu tali kallað Sumarhús. Ekki vildi betur til en svo að árið 1977 kviknaði í húsinu og gjöreyðilagðist skrifstofan, vinnusalir og götunaraðstaða. Vélbúnaður slapp hins vegar óskemmdur úr eldinum.

Netvæðing landsins er einnig tengd Reiknistofnun Háskóla Íslands órofa böndum en hún hófst árið 1986 með samstarfi stofnunarinnar við Hafrannsóknastofnun og Orkustofnun. Fram kemur í viðtali við Maríus Ólafsson, sem oft er nefndur faðir internetsins á Íslandi, í fréttabréfi Reiknistofnunar, að tölvudeildir Háskóla Íslands, bankarnir, Alþingi, mörg einkafyrirtæki og stofnanir hafi frá árunum 1986-1987 verið tengd netinu. Netið virkaði á sama hátt og það gerir í dag að því undanskildu að það var enginn vefur, en hann kom nokkrum árum síðar. Netið virkaði þó þannig að þar var tölvupóstur, skráarflutningar og nokkurs konar fréttakerfi sem Maríus segir að sé að vissu leyti fyrirrennari Twitter og Facebook.

Reiknistofnun var flutt í Tæknigarð seint á níunda áratug síðustu aldar þar sem hún var til húsa allt til ársins 2009 þegar hún var flutt í húsnæði Íslenskrar erfðagreiningar við Sturlugötu. Flutningar standa hins vegar aftur fyrir dyrum og mun stofnunin flytja að Neshaga 16 á næstu mánuðum.

Text

Stærstur hluti starfsmanna Reiknistofnunar Háskóla Íslands í dag. Þessi góði hópur sér til þess að allt tölvu-, net- og símkerfi Háskóla Íslands virki.

Image
Image
Starfsmenn Reiknistofnunar Háskóla Íslands 2014

Rúm 10% þjóðarinnar tengd Uglunni

Hlutverk Reiknistofnunar hefur breyst mjög mikið á þeim fimmtíu árum sem liðin síðan rafheilinn svokallaði var ræstur en breytingarnar hafa haldist í hendur við framþróun í tölvu- og fjarskiptatækni. Aðalhlutverk stofnunarinnar hefur þó verið eins og áður að þjóna háskólasamfélaginu. Stofnunin sér m.a. um alla vefi háskólans, þar á meðal innri vefinn Ugluna sem aðrir opinberir háskólar hafa einnig tekið upp. Samtals hafa um 35 þúsund manns í Háskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri, Hólaskóla og Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri, aðgang að Uglunni, eða yfir 10 prósent þjóðarinnar. Eitt af nýjustu afrekum Reiknistofnunar er svo sérstakt Uglu-app, Smáuglan, fyrir snjallsíma og spjaldtölvur en þar geta nemendur m.a. nálgast stundaskrána sína, matseðil Hámu, yfirlit yfir viðburði í skólanum og ýmislegt fleira.

Starfsmenn Reiknistofnunar eru í dag um 35 talsins og sinna afar fjölbreyttum störfum og sjá til þess að allt tölvu-, net- og símkerfi Háskóla Íslands virki. Þá kemur Reiknistofnun að rekstri einnar öflugustu tölvu landsins, ofurtölvunnar Garðars, sem nýtt er til alls kyns rannsóknir við Háskóla Íslands. Þess má geta að tölvan hefur afkastagetu á við 10 þúsund borðtölvur.

Háskóli Íslands óskar Reiknistofnun Háskóla Íslands til hamingju með stórafmælið og hvetur alla til þess að kynna sér nýjasta fréttabréf stofnunarinnar þar sem farið er rækilega yfir sögu, hlutverk og verkefni Reiknistofnunar.

Greinin birtist fyrst á vef Háskóla Íslands 12. desember 2014.