1964
Fyrsta skóflustungan fyrir húsi Raunvísindastofnunar
Fyrsta skóflustungan tekin fyrir húsi Raunvísindastofnunar var tekin í janúarmánuði 1964.
Háskólasjóður Eimskipafélags Íslands stofnaður
Háskólasjóður Eimskipafélags Íslands stofnaður til minningar um þá Vestur-Íslendinga sem hlut áttu í stofnun Eimskipafélags Íslands.
Íslensk málnefnd stofnuð
Íslensk málnefnd stofnuð með ráðherrabréfi 30. júlí þetta ár. Hún starfar nú samkvæmt 6. grein laga nr. 61/2011, um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls. Hlutverk nefndarinnar er að veita stjórnvöldum ráðgjöf um málefni íslenskrar tungu og gera tillögur um málstefnu. Nefndin semur íslenskar ritreglur sem m.a. gilda um stafsetningarkennslu í skólum og menntamálaráðherra gefur út.
Fé veitt til frjálsrar rannsóknastarfsemi
Af fjárlögum fyrir árið 1964 er fé veitt í fyrsta skipti til frjálsrar rannsóknastarfsemi. Háskólaráð setti reglur um þetta efni.
Fyrsti rafeindareiknir Háskóla Íslands
Reiknistofnun Háskóla Íslands (RHÍ) var stofnuð í desember þetta ár til þess að sjá um rekstur IBM 1620 tölvu Háskólans með 40.000 (40 KB) stafa minni og ritvél sem inntaks-/úttakstæki. Framkvæmdabankinn gaf Háskóla Íslands tölvuna. Þegar búa þurfti til íslenskt orð yfir enska heitið „computer“ varð orðið „tölva“ fyrir valinu.
Orð þótti vanta yfir gripinn og er Sigurði Nordal prófessor eignað orðið tölva sem hann setti fram 1965. Áður höfðu menn notast eitthvað við orðið rafeindareiknir.
Þetta markaði upphaf „tölvualdar“ á Íslandi. Rafeindareiknirinn kominn á sinn stað í Raunvísindastofnun í desember 1964.